Skoðun

Eflingarfólk!

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Barátta Eflingar starfsfólks á leikskólum Reykjavíkurborgar hefur um árabil verið ein skýrasta birtingarmynd kerfislægs misréttis á íslenskum vinnumarkaði. Þar mætast lág laun, mikið álag, ófullnægjandi starfsaðstæður og pólitísk tregða til að horfast í augu við raunveruleikann. Þrátt fyrir að þessi hópur haldi einum mikilvægasta innviði samfélagsins gangandi er hann síendurtekið jaðarsettur í umræðu, ákvarðanatöku og stefnumótun.

Ábendingar og skrif undanfarinna vikna draga þetta skýrt fram. Hvort sem horft er til umræðu frambjóðenda í borgarstjórnarkosningum, skýrslna unnar fyrir stjórnvöld eða afstöðu hluta forystu verkalýðshreyfingarinnar blasir við sama mynstrið. Raddir Eflingarfólks, sem að stórum hluta eru konur í líkamlega og andlega krefjandi umönnunarstörfum, fá ekki vægi. Þær eru ósýnilegar þegar rætt er um leikskólakerfið, nema sem óskilgreint vinnuafl sem ætlast er til að aðlagi sig að kerfinu óháð kostnaði fyrir heilsu og lífsgæði.

Í kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg hefur þetta birst með afgerandi hætti. Þar sem Efling mætti með raunhæfar kröfur um bættar starfsaðstæður og réttindi var viðbragð borgarinnar í sumum tilvikum táknrænt fremur en efnislegt. Áhersla á orðfæri og yfirborðslegar breytingar var sett í forgang fram yfir úrbætur á undirbúningstíma, ábyrgð og álagi starfsfólks sem sinnir sömu verkefnum og aðrir sambærilegir hópar innan leikskólanna. Slík nálgun sýnir hversu lítið er hlustað á þá sem standa í framlínunni.

En ábyrgðin liggur ekki einungis hjá sveitarfélaginu. Umræða um nauðsynlegar breytingar á leikskólamódeli og fjölskyldustefnu hefur vakið ugg. Þegar útilokað er að ræða lengingu fæðingarorlofs eða aðrar raunhæfar leiðir til að draga úr álagi með þeim rökum að það sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt er verið að setja hagkerfið ofar fólkinu. Sérstaklega er það alvarlegt þegar slíkt er réttlætt í nafni jafnréttis á meðan raunverulegar aðstæður verkakvenna eru hunsaðar.

Reynsla Eflingarfólks sýnir að breytingar gerast ekki af sjálfu sér. Árangur síðustu ára hefur náðst vegna samstöðu, þrautseigju og þess að beita þeim verkfærum sem standa til boða. Sú barátta hefur ekki snúist um óraunhæfar kröfur heldur um mannlega reisn, sanngirni og sjálfbærni kerfisins til lengri tíma. Leikskólar geta ekki byggst á stöðugu undirmönnunarástandi, kulnun starfsfólks og því að loka augunum fyrir raunverulegum kostnaði kerfislægrar vanrækslu.

Í aðdraganda kosninga er nauðsynlegt að Eflingarfólk og aðrir kjósendur spyrji skýrt hvaða stjórnmálafólk er tilbúið að horfast í augu við þessa staðreynd. Ekki með fallegum yfirlýsingum heldur með vilja til að hlusta, taka ábyrgð og standa með þeim sem bera uppi velferðarkerfið í verki. Barátta Eflingarfólks er ekki sérmál heldur prófsteinn á hvort samfélagið ætlar að taka umönnunarstörf, kvennastörf og verkafólk alvarlega.

Það er hægt að gera betur. Það er hægt að bæta laun, starfsaðstæður og draga úr óhóflegu álagi. Til þess þarf pólitískt hugrekki, virðingu fyrir þekkingu þeirra sem vinna störfin og raunverulega samvinnu við Eflingu. Sú krafa er bæði sanngjörn og brýn og hún mun ekki hverfa þó reynt sé að þagga hana niður

Í lokin vil ég hvetja Eflingarfólk eindregið til að skrá sig í Samfylkinginguna og taka þátt í flokksvalinu sem fram fer næsta laugardag 24. janúar. Þar gefst raunverulegt tækifæri til að tryggja að rödd Eflingarfélaga fái fulltrúa í þriðja sæti listans í Reykjavík. Það er ekki hægt að styðja mig nema að skrá sig og undir þér komið hvort það sé til lengri eða styttri tíma. Ég hef um árabil starfað í trúnaðarráði Eflingar og í samninganefnd félagsins og tekið þátt í krefjandi viðræðum við Reykjavíkurborg þar sem náðst hefur áþreifanlegur árangur í launamálum og réttindum starfsfólks. Sú reynsla hefur kennt mér að breytingar verða aðeins þegar fólk með þekkingu á veruleikanum situr við borðið. Ég hlakka til að geta nýtt þessa reynslu innan borgarstjórnar til að standa vörð um kjör, starfsaðstæður og virðingu Eflingarfólks og taka þátt í kjarabaráttu þess af festu og ábyrgð.

Hér er hægt að skrá sig: https://xs.is/takathatt Þú þarft að hafa lögheimili í Reykjavík, vera orðinn 16 ára, íslenska kennitölu og rafræn skilríki. Skráningu lýkur 23.janúar.

Höfundur er formaður Afstöðu-réttindafélags, í trúnaðarráði Eflingar og sérhæfður starfsmaður Landspítala háskólasjúkrahúss. Hann býður sig fram í þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2026.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×