Innlent

Parísarheimsókn fjárlaganefndar „mjög fróð­leg“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, tók nýverið við formennsku í fjárlaganefnd eftir að flokksbróðir hans Ragnar Þór Ingólfsson tók við ráðherraembætti. Parísarferðin var skipulögð á meðan Ragnar gegndi formennsku í nefndinni.
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, tók nýverið við formennsku í fjárlaganefnd eftir að flokksbróðir hans Ragnar Þór Ingólfsson tók við ráðherraembætti. Parísarferðin var skipulögð á meðan Ragnar gegndi formennsku í nefndinni. Getty/Vísir

Fulltrúar fjárlaganefndar Alþingis eru staddir í París þar sem þeir heimsækja í vikunni nokkrar stofnanir til að kynna sér verklag við fjárlagagerð innan OECD og verkefni fjárlaganefndar Frakklands. Formaður nefndarinnar segir ferðina hafa verið mjög gagnlega til þessa. Aðeins einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar er með í för en um tíma var útlit fyrir að enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar færi með.

„Það gengur bara vel. Við erum búin að fara á þrjá fundi, með OECD, svo fórum við í þingið og fórum yfir málin þar og svo var í morgun fundur með fjármálaráði Frakklands og svo erum við að fara í Seðlabankann núna,“ sagði Sigurjón Þórðarson formaður nefndarinnar þegar Vísir náði af honum tali upp úr hádegi í dag. Honum þyki heimsóknin hafa verið gagnleg til þessa.

Frönsk vinstri-kona fræddi nefndina um fjárlagavinnu þingsins

Sigurjón væntir þess að nefndin snúi til baka með gagnlega reynslu og upplýsingar sem nýst geti í störfum þeirra á Alþingi Íslendinga. „Þetta hefur verið bara mjög fróðlegt.“

Mikið umrót hefur verið í frönskum stjórnmálum að undanförnu og meðal annars reynst franska þinginu erfitt að koma í gegn fjárlögum. Sigurjón segir að það hafi verið áhugavert að fá innsýn í þá reynslu franskra kollega.

„Við höfum fengið innsýn í hvað gengur þar á. Við fengum greinargóða lýsingu frá mjög almennilegri þingkonu, sem er nú á ysta vinstrikantinum, þannig þetta er bara búið að vera jákvætt. Það er nú aðallega það að stuðningur við stjórnina hefur minnkað mikið þannig að valdahlutföllin í þinginu eru ekki stjórninni í vil. En svo fengum við mjög góðar leiðbeiningar og leiðarvísa um hvernig eigi að bæta fjárlagavinnu hjá OECD og fara yfir samanburðinn á Íslandi við önnur lönd,“ segir Sigurjón.

Hildur send með á síðustu stundu

Samkvæmt tilkynningu á vef Alþingis taka þátt í ferðinni þau Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins og formaður nefndarinnar, Arna Lára Jónsdóttir og Dagur B. Eggertsson frá Samfylkingu, Eiríkur Björn Björgvinsson og Ingvar Þóroddsson frá Viðreisn, ásamt Hildi Sverrisdóttur úr Sjálfstæðisflokki. Hildur er varamaður í fjárlaganefnd en ákveðið var á síðustu stundu að senda hana með í ferðina þar sem ljóst var að enginn af aðalmönnum minnihlutans í nefndinni hefðu tök á að fara með.

Hildur Sverrisdóttir er fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Parísarferðinni en hún er 1. varamaður í fjárlaganefnd.Vísir/Vilhelm

Ekki lá fyrir þegar ferðin var skipulögð að fyrsta umræða um samgönguáætlun myndi fara fram á sama tíma en aðalmenn stjórnarandstöðuflokkanna í fjárlaganefnd hugðust vera viðstaddir umræðu um samgönguáætlun. Hildur, sem er Reykjavíkurþingmaður og 1. varamaður í fjárlaganefnd, hafi því verið send með í ferðina á síðustu stundu svo að meirihlutinn væri ekki einn til frásagnar um þau skilaboð sem nefndin fái í heimsókninni til OECD.

„Við erum bara hérna í góðu tómi, við sem að mættum en það er ein frá minnihlutanum, hún Hildur. Sem er bara jákvætt, en auðvitað söknum við þeirra sem eru í minnihlutanum og komu ekki með, en hún mun örugglega færa þeim góðar fréttir af ferðinni,“ segir Sigurjón, spurður um fjarveru nefndarmanna minnihlutans. 

Hann gerir ráð fyrir að gera heimsóknina betur upp og gera grein fyrir henni þegar heim er komið, en Parísarferðinni lýkur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×