Viðskipti innlent

Bjarni Ben nýr fram­kvæmda­stjóri SA

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson með Jóni Ólafi Halldórssyni, formanni SA.
Bjarni Benediktsson með Jóni Ólafi Halldórssyni, formanni SA. SA

Bjarni Benediktsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Bjarni hefur áður gegnt embætti forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Íslands en hann tekur við stöðunni af Sigríði Margréti Oddsdóttur.

Frá þessu segir í tilkynningu frá SA. Þar segir að Bjarni hafi lokið námi í lögfræði frá Háskóla Íslands, er með meistaragráðu, LL.M. gráðu frá Háskólanum í Miami í Bandaríkjunum, auk þess að vera löggiltur verðbréfamiðlari.

„Frá því ég steig til hliðar sem formaður Sjálfstæðisflokksins tók ég mér gott frí og svo þegar þetta mál bar á góma við mig þá fann ég það að ég var tilbúinn að takast á við þetta,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu og að ráðningin hafi átt sér skamman aðdraganda.

Hann segir langtímasamninga í gildi fyrir stóran hluta íslensks atvinnulífs sem allir voni að haldi, en á sama tíma séu krefjandi aðstæður fyrir íslenskt atvinnulíf og að mörgu að huga.

„Til að byrja með þá mun maður gefa sér tíma til þess að setjast niður með aðildarfélögunum og stjórninni og móta þessar helstu áherslur sem skipta máli við þær breyttu aðstæður sem við erum að glíma við núna.“

Reynt að bæta samfélagið

Bjarni segist hafa varið bróðurpartinum af sinni starfsævi í að reyna að bæta samfélagið.

„Það má segja að það gangi vel á Íslandi þegar atvinnustarfseminni gengur vel. Það er hátt vaxtastig á Íslandi í dag og ákveðnar væringar á alþjóðasviðinu. Það eru að eiga sér stað breytingar, en í breytingum felast líka mjög mikil tækifæri. Þannig að verkefnið er auðvitað að viðhalda og sækja fram með samkeppnishæfni landsins.“

Hann segist að lokum spenntur fyrir verkefninu.

Ég er mjög spenntur fyrir þessu starfi og spenntur fyrir því að vinna með því fólki sem er þarna. Það er mjög öflugt starfslið hjá samtökunum.“

Búi yfir einstakri reynslu

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Ólafi Halldórssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins, að Bjarni búi yfir einstakri reynslu og innsýn í íslenskt atvinnulíf á mestu umbrotatímum í íslensku samfélagi síðustu áratugi. 

„Fáir þekkja gangverk samfélagsins jafn vel. Á tímum þar sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir áskorunum og tækifærum sem krefjast öflugrar hagsmunagæslu, skýrra áherslna og náinnar samvinnu lykilaðila í efnahagslífinu er Bjarni Benediktsson ómetanlegur í forystu fyrir íslensk fyrirtæki. Ég hlakka til samstarfsins,“ segir Jón Ólafur.

Þá er haft eftir Bjarna að hlutverk Samtaka atvinnulífsins sé mikilvægt og að hann hlakki til þess að starfa með öflugum hópi starfsmanna samtakanna og öllum haghöfum samtakanna að því að styðja íslenskt atvinnulíf til verðmætasköpunar. „Eftir því sem atvinnulífinu gengur betur, þeim mun betri verða lífskjörin og þeim mun sterkara verður landið okkar,“ segir Bjarni.

Bjarni tekur við starfinu þann 1. mars næstkomandi af Sigríði Margréti Oddsdóttur sem hefur verið ráðin forstjóri Bláa Lónsins.

Um Samtök atvinnulífsins segir að það séu heildarsamtök atvinnulífsins en félagsmenn þeirra séu fjölbreytt fyrirtæki í öllum atvinnugreinum landsins sem samanlagt standa að baki um 70 prósent launagreiðslna á almennum vinnumarkaði. „Framtíðarsýn samtakanna er samfélag hagsældar og tækifæra og hlutverk þeirra er að styðja íslenskt atvinnulíf til verðmætasköpunar og jákvæðra áhrifa á samfélagið allt. Innan Samtaka atvinnulífsins eru sex aðildarsamtök.“

Fréttin hefur verið uppfærð með viðtali við Bjarna Benediktsson, klukkan 09:13 þann 26.1. 2026. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×