Skoðun

Skóli án að­greiningar: mar­traðar­kenndur draumur

Gunnar Salvarsson skrifar

Nú þegar rykið hefur sest eftir stóra hvellinn sem heyrðist landshorna á milli þegar nýr barna- og menntamálaráðherra fór mikinn í frægu Kastljóssviðtali er ástæða til að halda áfram umræðunni um grunnskólann. Þótt ráðherrann hafi sagt ýmislegt sem ekki stóðst nánari skoðun hafði Inga Sæland í öllum meginatriðum rétt fyrir sér.

Skóli án aðgreiningar var seint á síðustu öld settur fram sem stefna um tiltekna draumsýn: að öll börn ættu rétt á að ganga í hverfisskóla og fá menntun sína þar. Fallega hugsað, en fjarskalega illa ígrundað. Á síðustu áratugum hefur orðið ljóst að í framkvæmd breyttist stefnan fljótt í hálfgerða martröð. Fyrir því eru margar ástæður.

Tvennt gerðist um svipað leyti: hugmyndafræðin um blöndun eða samþættingu fékk byr undir báða vængi og stjórnvöld ákváðu að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Ríkið sá sér leik á borði að færa þetta risastóra verkefni í fang sveitarfélaganna einmitt á þeim tímapunkti, án þess að raunhæft viðbótarfjármagn fylgdi í samræmi við nýtt og stóraukið hlutverk skólanna.

Frá þeim tíma hefur vandi grunnskólanna verið augljós. Kennarar og skólastjórnendur hafa þurft að fást við sífellt flóknari aðstæður: nemendur á ólíkum þroska- og getustigum, með alls kyns greiningar, ólíkan bakgrunn og mörg móðurmál. Auðvitað væri æskilegast að hvert barn hefði einstaklingsnámskrá og að skólinn væri leitarstöð hæfileika, þar sem menntun byggðist á styrkleikum hvers og eins. En í reynd er þetta fjarri veruleikanum. Sérhver kennari glímir við óviðráðanlegt verkefni og námsárangri barna hrakar.

Við þessar aðstæður, sífellt meiri kröfur án samsvarandi úrræða, hverfa eðlilega margir kennarar frá starfinu sem þeir höfðu ástríðu fyrir og höfðu lagt að baki langt krefjandi nám. Aðrir fara í löng veikindaleyfi vegna álags. Nemendur með meðalgreind og þar yfir fá ekki svalað þorsta sínum eftir menntun vegna þess að búið er að lækka rána svo mikið.

Þrennt skiptir hér sérstaklega miklu máli.

Í fyrsta lagi þurfa skólarnir, til viðbótar við menntun barna með ýmiss konar sérþarfir og greiningar, í auknum mæli að sinna börnum sem hafa íslensku sem annað mál. Þetta er verkefni sem kallar á sértæk úrræði, en lendir oftar en ekki á almennum bekkjarkennurum án þess að þeir fái nægilegan stuðning.

Í öðru lagi hefur uppgangur samfélagsmiðla og stafræns áreitis gerbreytt bernsku- og námsumhverfi barna. Skólinn hefur þurft að takast á við þennan nýja veruleika, jafnframt því að innleiða nýja kennsluhætti í takt við tækninýjungar, án þess að fá skýrar reglur eða raunhæfa leiðsögn um hvernig best sé að bregðast við.

Í þriðja lagi er minnkandi læsi og veikari málskilningur barna verulegt áhyggjuefni, ekki síst meðal drengja. Lestur er lykill að öllu námi. Þetta er samfélagsvandi, ekki eingöngu skólavandi.

Umræðu um menntamál ber að fagna. Ætli stjórnvöld sér, með einlægan og ástríðufullan ráðherra í stafni, að endurskoða menntakerfið verður það að gerast af yfirvegun. Það krefst heiðarlegrar greiningar, raunhæfrar fjármögnunar og skýrrar viðurkenningar á því að jöfn réttindi barna felast ekki í einni lausn fyrir öll börn, heldur í raunverulegum tækifærum barna til að blómstra á eigin forsendum.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.




Skoðun

Sjá meira


×