Bíó og sjónvarp

Kynlífssena sau­tján ára stúlku hafi splundrað sam­starfi bræðranna

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Joshua og Benjamin Safdie leikstýrðu fimm myndum saman yfir tíu ára tímabil áður en þeir fóru hvor í sína áttina. Ástæðan er sögð vera ólögleg kynlífssena sautján ára stúlku.
Joshua og Benjamin Safdie leikstýrðu fimm myndum saman yfir tíu ára tímabil áður en þeir fóru hvor í sína áttina. Ástæðan er sögð vera ólögleg kynlífssena sautján ára stúlku. Getty

Kynlífsatriði sautján ára stúlku í kvikmyndinni Good Time frá 2017 ku hafa valdið því að bræðurnir Josh og Benny Safdie, heitasta leikstjórnartvíeyki Hollywood, slitu samstarfi sínu eftir rúmlega fimmtán ára samvinnu. Josh á að hafa komist að aldri stúlkunnar á tökustað en Benny ekki orðið almennilega meðvitaður um aldur hennar fyrr en sex árum síðar.

Safdie-bræðurnir hófu að gera myndir saman sem börn og fyrsta samstarfsverkefni þeirra í fullri lengd var The Pleasure of Being Robbed sem kom út 2008. Þeir hófu í kjölfarið að leikstýra saman, slógu í gegn með spennumyndinni Good Time árið 2017 og vöktu svo enn meiri athygli með Uncut Gems árið 2019 með Adam Sandler í aðalhlutverki.

Adam Sandler sýndi stjörnuleik í Uncut Gems.TIFF

Henni ætluðu þeir að fylgja eftir með ónefndri hafnaboltamynd með Sandler og Ben Affleck. Ekkert varð af henni, verkföll seinkuðu tökum og bræðurnir héldu á endanum hvor í sína átt. Benny hefur síðan haft nóg að gera, lék í fjölmörgum verkefnum og leikstýrði svo The Smashing Machine í fyrra með Dwayne Johnson í aðalhlutverki, meðan Josh leikstýrði borðtennismyndinni Marty Supreme með Timothee Chalamet sem hlaut nýverið níu Óskarstilnefningar.

Sjá einnig: Slappur smassborgari

Skýringin á því af hverju bræðurnir fóru hvor í sína áttina hefur aldrei legið almennilega fyrir. Sögusagnir um að Josh væri orðinn harður MAGA-maður fóru í umferð og opinberlega kenndu bræðurnir verkföllum í bransanum um. Nú virðist raunveruleg ástæða fyrir skilnaðinum komin í ljós.

Dægurmálamiðillinn Page Six Hollywood sem sérhæfir sig í gulum fréttum úr skemmtanabransasnum segir að rekja megi skilnaðinn aftur til myndarinnar sem kom þeim á kortið, Good Time.

Varð meðvitaður um aldurinn eftir senuna

Bræðurnir hafa allan sinn ferill lagt upp með að ráða óreynt fólk í hlutverk og samkvæmt heimildarmönnum Page Six réðu þeir sautján ára stúlku til að leika vændiskonu í myndinni. Á tökustað var stúlkunni síðan gert að leika í senu sem innihélt nekt og leikið kynlíf með leikaranum Buddy Duress (sem hét réttu nafni Michael Stathis og lést úr of stórum skammti 2023).

Duress var þá 32 ára og nýkominn úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóm í tengslum við vopnalagbrot, sölu á stolnum varningi og vörslu vímuefna. Josh fylgdist með atriðinu úr leikstjórnarstólnum var Benny í horninu með hljóðnema. Senan hófst og á Duress, sem er sagður hafa verið í mikilli vímu, þá að hafa tekið niður um sig buxurnar og spurt hálfnakta stúlkuna hvort hann mætti „stinga honum inn“.

Buddy Duress lést nokkrum árum eftir tökur á Good Time.

„Hvaða leikstjóri sem hefði séð þetta hefði átt að hrópa „kött!“ og stoppa senuna, en Josh leyfði henni að halda áfram,“ segir heimildarmaður sem var á vettvangi tökustaðarins. 

Miðillinn hefur eftir þremur heimildarmönnum að Josh, sem var í síðustu viku tilnefndur til Óskarsverðlaun fyrir bestu leikstjórn, hafi orðið meðvitaður um aldur stúlkunnar á tökudegi, skömmu eftir að senan var tekin upp og stúlkan brotnaði saman.

Fyrir utan að vera að öllum líkindum ólöglegt þá brjóta slík vinnubrögð í bága við reglur SAG (e. Screen Actors Guild) um að vinnuaðstæður megi ekki vera „skaðlegar heilsu, siðgæðum og öryggi barns“. Skeytingarleysi leikstjóranna hafi þverbrotað þær.

Lak í fjölmiðlum vegna skilnaðar framleiðandans

Atriðið umdeilda var tekið úr myndinni áður en hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2017. Upplýsingar um tökurnar komu ekki almennilega í ljós fyrr en 2022 þegar fyrrverandi framleiðslufélagi bræðranna, Sebastian Bear-McClard, átti í hörðum skilnaðardeilum við leikkonuna Emily Ratajkowski og upplýsingar um málið láku til fjölmiðla.

Bræðurnir komust í kjölfarið að því að Bear-McClard hafði verið meðvitaður um aldur stúlkunnar frá byrjun og ráku hann. En það var líka þá sem Benny komst í fyrsta skiptið að raunverulegum aldri stúlkunnar og að bróðirinn hefði haldið upplýsingunum frá honum. Skarð hafi myndast í samstarfið.

Þeir héldu þó áfram að vinna saman í níu mánuði samhliða vaxandi ólgu áður en allt sprakk endanlega í loft upp við undirbúning á nýrri mynd bræðranna með Adam Sandler.

„Þú þróar ekki skyndilega með þér samvisku sex árum síðar. Það virkar ekki þannig,“ hefur Page Six eftir nafnlausum heimildarmanni tengdu málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.