Viðskipti innlent

Síminn: Taka höndum saman

Almenningur hefur tekið höndum saman við Burðarás, Tryggingamiðstöðina og Talsímafélagið um að skila inn tilboði í Landssímann. Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, og fulltrúar Almennings sátu á fundi í Landsbankanum fram eftir nóttu. Orri Vigfússon, talsmaður Almennings, vildi ekki játa þessu né neita. Hann segist vera bundinn trúnaði og verið sé að leggja síðustu hönd á tilboðið. Í sama streng tók forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar. Tilboðsfrestur í Landsímann rennur út klukkan þrjú í dag. Fimmtíu fengu útboðsgögn hjá einkavæðinganefnd. Tilboðum verður að skila til Morgan Stanley í Lundúnum. Jörundur Valtýsson, starfsmaður einkavæðinganefndar, segir að ekki verði gefinn út fjöldi tilboða fyrr en á morgun. Það verður síðan ekki gefið upp fyrr en eftir viku hverjir buðu. Þeir sem eftir standa og uppfylla skilyrði einkavæðinganefndar fá síðan að kynna sér fyrirtækið nánar og þau trúnaðargögn sem þar eru. Að því loknu geta þeir skilað inn bindandi tilboðum. Miðað er við að ferlinu ljúki í júlí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×