Viðskipti erlent

Fáar nýráðningar í Bandaríkjunum

Nýráðningar voru með minnsta móti í Bandaríkjunum í síðasta mánuði, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna.  Nýráðningar voru 138.000 talsins og er það með minnsta móti samanborið við síðustu sex mánuði. Laun hafa hins vegar hækkað nokkuð og vekur það ugg manna um yfirvofandi verðbólgu. Atvinnuleysi stóð í stað á milli mánaða en það mældist 4,7 prósent í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.

Laun hækkuðu um 3,8 prósent á síðasta ári og er það mesta hækkun á milli ára síðan í ágúst árið 2001.

Nýráðningar í Bandaríkjunum voru með minnsta móti í október á síðasta ári, eða 37.000. Ástæðan er sú að þá voru mörg fyrirtæki enn að jafna sig eftir afleiðingar fellibylsins í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Nýráðningarnar eru nokkuð undir væntingum sérfræðinga sem spáðu því að 200.000 manns yrðu ráðnir til starfa í mánuðinum. 

Fækkun starfa varð mest í smásölugeiranum vestra í síðasta mánuði. Störfum fjölgaði hins vegar hjá byggingar- og fjármálafyrirtækjum en fjölgun starfa í iðnaði hefur ekki verið meiri í Bandaríkjunum á síðastliðnum tveimur árum.

Þá eru meðallaun verkafólks í Bandaríkjunum 16,61 Bandaríkjadalur á tímann, jafnvirði tæpra 1.200 króna, á tímann. Þetta er 0,5 prósenta hækkun frá marsmánuði en 3,8 prósentum hærri laun en fyrir ári.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×