Viðskipti erlent

Verðbólga á Írlandi 3,8 prósent

Verðbólga hækkaði um 0,3 prósentustig á milli mánaða og mældist 3,8 prósent á Írlandi í apríl. Hún hefur ekki verið jafn há síðastliðin þrjú ár, samkvæmt útreikningum írsku hagstofunnar. Helstu ástæður hækkunarinnar voru verðhækkanir á húsnæði og eldsneyti. 

Hækkunin kom hagfræðingum á óvart og kenndu stjórnarandstöðuflokkar ríkisstjórn landsins um aukna verðbólgu í landinu.

Húsnæðis- og eldsneytisverð á Írlandi hefur hækkað um 13,2 prósent á síðastliðnum 12 mánuðum en helstu ástæður hækkunarinnar má m.a. finna í stýrivaxtahækkun evrópska seðlabankans. Þá hafa skólagjöld og kostnaður tengdur heilsugæslu hækkað um 4,6 prósent á sama tímabili.  

Richard Bruton, talsmaður fjármála í írska stjórnarandstöðuflokkinum Fine Gael, sakaði ríkisstjórnina um að beita sér ekki gegn samráði fyrirtækja í fjármála- og olíugeiranum og benti hann á að hækkanirnar á Írlandi hafi verið meiri en meðaltalshækkanir á evrusvæðinu. „Ríkisstjórninni hefur mistekist að halda verði niðri. Henni hefur einnig mistekist að skapa samkeppnishæft umhverfi í þeim þáttum sem hún á að hafa eftirlit með,“ sagði hann og benti á að Írlans væri viðkvæmt gagnvart óheiðarlegum viðskiptaháttum stórfyrirtækja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×