Viðskipti erlent

Enn fleiri rafhlöður innkallaðar

Fartölva frá Toshiba.
Fartölva frá Toshiba.

Japanski tölvuframleiðandinn Fujitsu hefur bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa ákveðið að innkalla rafhlöður frá Sony, sem seldar voru með fartölvum fyrirtækisins. Um 287.000 rafhlöður er að ræða að þessu sinni, sem verða innkallaðar í varúðarskyni.

Áður höfðu Dell, Toshiba, Lenovo, Sony og Apple ákveðið að innkalla tæplega 7 milljónir rafhlaða á heimsvísu.

Vegna galla í rafhlöðunum geta þær ofhitnað og geta afleiðingarnar orðið þær að kviknað hefur í nokkrum fartölvum frá Dell.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir greiningaraðilum að innköllunin geti haft áhrif á allt að 10 milljón fartölvueigendur og geti svo farið að hún muni kosta Sony allt að 500 milljónir bandaríkjadala, tæpa 35 milljarða íslenskra króna. Ef af verður munu áhrifin verða þau að hagnaður Sony verður helmingi minni en áætlað var.

Gengi hlutabréfa í Sony hefur lækkað nokkuð síðan í ágúst þegar fyrst var tilkynnt um innköllun á rafhlöðum frá fyrirtækinu. Og ekki bætti úr skák, að fyrirtækið ákvað að fresta markaðssetningu nýjustu leikjatölvu fyrirtækisins, PlayStation 3, í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×