Viðskipti erlent

Sameinast um yfirtöku á Euronext

Mynd/AFP
Kauphallir á Ítalíu og í Þýskalandi hafa gert með sér samkomulag um að gera yfirtökutilboð í samevrópska hlutabréfamarkaðinn Euronext. Verði af yfirtöku skáka markaðirnir tilboði NYSE Group, sem rekur kauphöllina  í New York í Bandaríkjunum, í evrópska markaðinn.

Deutsche Börse hefur um nokkurn tíma horft til þess að renna saman við aðrar kauphallir í Evrópu. Þar á meðal Kauphöllina í Lundúnum (LSE) í Bretlandi og Euronext. Kauphöllin þýska gerði yfirtökutilboð í Euronext, sem rekur kauphallir í París í Frakklandi, Lissabon í Portúgal, í Belgíu og Amsterdam í Hollandi, í sumar en stjórn Euronext hafnaði því. Þá gerði kauphöllin sömuleiðis yfirtökutilboð í alla hluti LSE á síðasta ári en eigendur hennar höfnuðu því.

Þá hefur sömuleiðis verið hugur í stjórn kauphallarinnar á Ítalíu, Borsa Italiana, að ganga til samstarfs við þýsku kauphöllina.

NYSE Group hefur gert 10 milljarða dala, eða 690 milljarða króna, yfirtökutilboð í Euronext.

Ekki liggur fyrir hversu hátt tilboð kauphallanna í Euronext hljóðar að öðru leyti en því að það er ætlað að skáka tilboði NYSE Group.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×