Viðskipti erlent

Smásöluverslun jókst umfram væntingar

Mynd/AFP

Velta í smásöluverslun í Bretlandi jókst um 0,9 prósent í síðasta mánuði, samkvæmt útreikningum bresku hagstofunnar. Þetta er þrisvar sinnum meira en greiningaraðilar höfðu reiknað með enda talsverð aukning frá því í september en þá dróst velta í smásöluverslun saman um 0,4 prósent á milli mánaða.

Þetta jafngildir því að vísitala smásöluverslunar í Bretlandi hafi aukist um 3,9 prósent á ársgrundvelli. Vísitalan stóð i 3,0 prósentum í september og gerðu greiningaraðilar ráð fyrir að vöxturinn myndi nema 3,2 prósentum nú.

Að sögn hagstofunnar varð söluaukning í öllum flokkum að matvöru undanskilinni en þar dróst salan saman um 0,2 prósent á milli mánaða. Sala á fatnaði jókst hins vegar mjög mikið eða um 1,9 prósent á sama tíma. Aukning á milli mánaða hefur ekki verið jafn mikil síðan í febrúar á þessu ári og sló á ótta greiningaraðila um að gott veður myndi draga úr smásölu með fatnað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×