Viðskipti erlent

Lord Browne hættur hjá Goldman Sachs

Lord Browne, fyrrum forstjóri BP.
Lord Browne, fyrrum forstjóri BP. Mynd/AFP
Lord Browne, fyrrum forstjóri breska olíufyrirtækisins BP, hefur sagt starfi sínu lausu hjá bandaríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs. Starfslokin eru liður í brotthvarfi hans úr forstjórastóli BP en hann hætti tveimur mánuðum fyrr en hann ætlaði eftir að hann tapaði dómsmáli í Bretlandi en þar var hulunni svipt af samkynhneigð hans og kynnum hans af ástmanni sínum.

Browne hefur verið í stjórnendateymi Goldman Sachs frá árinu 1999 og verið stjórnarformaður endurskoðunarnefndar bankans auk annarra starfa.

Browne hafði starfað í 41 ár hjá breska olíurisanum BP þegar hann hætti skyndilega í byrjun mánaðar. Hann stefndi að því að fara úr forstjórastólnum í sumar en í kjölfar þess að hann tapaði máli sínu gegn dagblaði þar sem honum tókst ekki að hindra fréttaflutning af einkalífi sínu ákvað hann að fara fyrr en ella.

Browne átti í ástarsambandi við kanadískan mann sem seldi frétt sína af sambandi þeirra Brownes til fjölmiðla í Bretlandi. Browne vildi koma í veg fyrir að umfjöllun fjölmiðla næði inn fyrir svefnherbergisdyr hans. Honum tókst það ekki og afréð því að hætta hjá BP.

Lloyd Blankfein, forstjóri Goldman Sachs, sagði þegar fyrir lá að Browne ætlaði að yfirgefa bankann að hann hefði verið gulls ígildi og jós hann lofi.

Þótt Lord Browne hafi sagt skilið við BP og Goldman Sachs er hann eftir sem áður stjórnarformaður ráðgjafaráðs bandaríska fjárfestingafélagsins Apax Partners.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×