Viðskipti erlent

Pliva dregur úr hagnaði Barr

Höfuðstöðvar Pliva í Króatíu.
Höfuðstöðvar Pliva í Króatíu. Mynd/AP

Hagnaður bandaríska lyfjafyrirtækisins Barr nam 45,3 milljónum bandaríkjadala, rúmlega 2,9 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 41 prósents samdráttur frá sama tíma í fyrra og skrifast að mestu leyti á kostnað við yfirtöku á króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva síðasta haust.

Barr keppti við nokkur lyfjafyrirtæki um Pliva. Þar á meðal var Actavis. Barr hafði betur í baráttunni og greiddi 2,4 milljarða dala, eða 170,5 milljarða íslenskra króna, fyrir félagið.

Hagnaðurinn jafngildir 41 senti á hlut, sem er langt undir væntingum greinenda, sem höfðu reiknað með hagnaði upp á 72 sent á hlut, að sögn fréttastofu Reuters.

Tekjurnar námu 637 milljónum dala, en það er 81 prósents aukning frá sama tíma í fyrra. Sala á vörum fyrirtækisins rúmlega tvöfaldaðist á milli ára en hún nam 487 milljónum dala. Aukningin er tilkomin í gegnum Pliva.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir að hagnaður lyfjafyrirtækisins nemi 3,3 dölum á hlut, sem er 30 senta hækkun frá fyrri spá. Það jafngildir hagnaði upp á 2,5 milljarða dala, sem er 100 milljónum meira en fyrri spá hljóðaði upp á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×