Samtök verslunar í Bretlandi segir nauðsynlegt að Englandsbanki lækki stýrivexti en það muni auka bjartsýni neytenda á horfur í efnahagsmálum. Vaxtaákvörðunarfundur Englandsbanka er á morgun en reiknað er með því að bankastjórnin haldi stýrivöxtum óbreyttum í 5,75 prósentum að sinni.
Seðlabankinn hefur verið undir miklum þrýstingi á að lækka stýrivexti frá á vordögum til að blása lífi í smásöluverslun. Bankinn hefur hins vegar stefnt að því að draga úr verðbólgu, sem fór yfir þriggja prósenta markið í vor og hafði ekki verið hærri í áratug. Verðbólga í Bretlandi hefur hins vegar legið undir tveimur prósentum síðastliðna tvo mánuði og er gert ráð fyrir að hún hreyfist ekki mikið upp á við á næstunni, að sögn fréttaveitunnar Thomson Financials.
Meirihluti fjármálaskýrenda telur líkur á að seðlabankinn ákveði fremur að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni í ljósi óróleika á fjármálamörkuðum upp á síðkastið og muni ekki hugsa sér til hreyfings fyrr en ástandið hafi verið metið.