Körfubolti

25,000 dollara ummæli Rasheed Wallace

Rasheed Wallace á afar erfitt með að hemja skapsmuni sína
Rasheed Wallace á afar erfitt með að hemja skapsmuni sína NordcPhotos/GettyImages

Rasheed Wallace, leikmaður Detroit Pistons, er nú aðeins einni tæknivillu frá því að verða dæmdur í eins leiks bann með liði sínu í úrslitakeppni. Hann fékk sína sjöttu tæknivillu í úrslitakeppninni í fyrrakvöld fyrir að rausa í dómurum.

Wallace var aukin heldur dæmdur til að greiða 25,000 dollara sekt fyrir fúkyrði sem hann lét falla um dómara leiksins eftir fimmta leikinn gegn Boston í fyrrakvöld.

Detroit tapaði leiknum og berst fyrir lífi sínu á heimavelli í sjötta leiknum klukkan 00:30 í nótt.

Hér fyrir neðan má sjá ummælin sem Wallace var sektaður fyrir, reyndar með ritskoðun.

"Allir þessir (ritskoðað) dómar sem þeir (Celtics) fengu í þessum leik. Þið sáuð öll þetta (ritskoðað)! Margar af þessum svokölluðu villum voru bara leikaraskapur í leikmönnum Boston. Þeir voru að láta sig detta út um allan völl og þeir flauta á það (ritskoðað)! Þetta (ritskoðað) er ekki körfubolti. Þetta er bara (ritskoðað) skemmtun í þeirra augum. Þið ættuð að vita það (ritskoðað). Þetta er ekkert nema (ritskoðað) skemmtun í þeirra augum," sagði Wallace argur eftir fimmta leikinn.

Ljóst er að Wallace verður að halda sér á mottunni í sjötta leiknum í nótt, því ef heimamenn vinna og Wallace fær tæknivillu - verður hann í leikbanni þegar liðin mætast í oddaleik í Boston á sunnudagskvöldið.

Allir leikir í einvíginu verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Leikurinn í kvöld hefst sem fyrr segir klukkan hálfeitt eftir miðnætti og komi til oddaleiks verður hann á sama tíma á sunnudagskvöldið - einnig í beinni á Stöð 2 Sport.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×