Viðskipti erlent

Svissneskir bankastjórar settir í farbann

Töluverður fjöldi svissneskra banka hafa nú sett bankastjóra sína í farbann. Mega þeir ekki einu sinni ferðast til nágrannalanda á borð við Frakkland og Þýskaland.

Ástæðan fyrir farbanninu er ótti um að bankastjórarnir verði kyrrsettir erlendis vegna hlutdeildar bankanna í skattsvikum og öðru ólöglegu athæfi.

Financial Times fjallar um málið og þar segir að stöðugt fleiri einkabankar í Sviss, einkum í Genf, hafi sett bankastjóra sín í farbann.

Óttinn við kyrrsetningu er ekki ástæðulaus. Nefna má að nýlega var einn af bankastjórum UBS kyrrsettur af bandarískum yfirvöldum þar í landi. Grunur lék á að bankinn hefði aðstoðað fjölda Bandaríkjamanna við skattsvik. Bankastjórinn var ekki leystur úr haldi fyrr en UBS hafði fallist á að greiða 800 milljónir dollara í sekt.

Svissneskur bankamaður, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir í samtali við Financial Times að ef hann ferðist til Þýskalands í dag eigi hann á hættu að verða handtekinn þar af tollyfirvöldum. Hið sama gildi um lönd á borð við Bandaríkin. „Ef ég þarf að ferðast til Bandaríkjanna hugsa ég mig um tvisvar áður en ég legg af stað," segir hann.

Og þessi bankamaður bætir því við að menn séu jafnvel hættir að ferðast til Frakklands. „Staðan er nú sú að við höldum okkur bara alfarið heima í Genf," segir þessi bankamaður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×