Viðskipti erlent

Íhuga lögreglurannsókn á íslensku bönkunum í Bretlandi

Efnahagsbrotadeild lögreglunnar í Bretlandi (Serious Fraud Office) er nú að íhuga rannsókn á starfsemi Kaupþings og Landsbankans þar í landi. Fram kemur á Timesonline að deildin byrjaði rannsókn á dótturfélagi AIG Í Bretlandi í gær og að Kaupþing og Landsbankinn gætu verið næst á listanum.

Samkvæmt Times eru yfirmenn SFO að fara yfir málin hvað varðar Kaupþing og Landsbankann með það fyrir augum að hefja opinbera rannsókn á starfsemi þeirra.

Fréttastofa hafði samband við SFO vegna þessarar fréttar í Times. Þau svör fengust að deildin tjáði sig almennt ekki um mál af þessu tagi fyrr en ákvörðun lægi fyrir um rannsókn.

Fram kemur í Times að töluverður pólitískur þrýstingur sé til staðar á breska þinginu um að slíkri rannsókn verði hleypt af stokkunum. Vilji þingmanna standi til að um umfangsmikla rannsókn yrði að ræða.

Í augnablikinu er SFO að athuga 5 til 6 breska banka með rannsókn í huga og eru íslensku bankarnir tveir þar með taldir.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×