Viðskipti erlent

Norskur silfurdalur sleginn á 25 milljónir

Sjaldgæft eintak af norskum silfurdal, svokölluðum Gimsöydal, var nýlega slegið á uppboði í Osló fyrir tæpar 1,2 milljónir norskra kr. eða um 25 milljónir kr. Gimsöydalir voru fyrstu silfurdalirnir sem slegnir voru í Noregi og er þessi frá árinu 1546.

Í frétt um málið á vefsíðunni E24.no segir að kaupandi myntarinnar hafi ekki vilja láta nafn síns getið en uppboðið fór fram hjá Oslo Mynthandel. Þetta er í annað sinn sem norsk mynt er slegin á meir en eina milljón norskra kr. að sögn Ronny Hatletvedt hjá Oslo Mynthandel.

Í síðasta sinn sem Gimsöydalur var seldur var árið 2001 og fengust þá 250.000 norskar kr. fyrir hann.

Það eru aðeins 18 Gimsöydalir til í umferð í heiminum í dag. Tólf af þessum myntum eru í eigu safna en sex í einkaeigu. Sá sem seldur var nú er í bestu ásigkomulagi þeirra sem eru í einkaeign. Þetta mun vera ein eftirsóttasta mynt Noregs meðal safnara.

Sem fyrr segir eru Gimsöydalir fyrstu silfurdalirnir sem slegnir voru í Noregi og var myntsláttan staðsett við nunnuklaustrið Gimsöy við Skien.

Silfurdalir, eða spesíudalir, voru opinber mynt í Noregi fram til ársins 1874 þegar krónur og aurar leystu þá af hólmi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×