Viðskipti erlent

Stýrivextir aldrei lægri í sögu Svíþjóðar

Seðlabanki Svíþjóðar hefur lækkað stýrivexti úr 1% og niður í 0,5%. Hafa stýrivextir aldrei verið lægri í sögu landsins. Og seðlabankastjórinn gerir ráð fyrir að hugsanlega muni þetta vaxtastig gilda allt fram til ársins 2011.

Samkvæmt umfjöllun um málið í norrænum fjölmiðlum er ástæða þessarar lækkunar sú að mun verr horfir í efnahagsmálum Svíþjóðar en áður var talið. Nýjar spár gera nú ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu landsins muni nema 4,5% í ár en áður var talið að samdrátturinn myndi nema 1,6%.

Þá áformar bankastjórn seðlabankans að standa að töluverðum kaupum á ríkisskuldabréfum og jafnvel fasteignabréfum ef kreppan í Svíþjóð verður dýpri en fyrrgreindar spár gera ráð fyrir.

Samkvæmt umfjöllun á Bloomberg var vaxtalækkunin í takt við það sem meirihluti 21 sérfræðings spáði fyrir hjá fréttaveitunni. Minnihlutinn taldi að vaxtalækkunin yrði enn meiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×