Viðskipti erlent

Moody´s: Búsáhaldabylting í Grikklandi og á Bretlandi

Lánsmatsfyrirtækið Moody´s hefur gefið út viðvörun um að samfélagslegur órói sé framundan hjá þjóðum með miklar skuldir. Allar líkur séu á búsáhaldabyltingu á næsta ári í löndum á borð við Grikkland og Bretland þar sem verulega þarf að skera niður í útgjöldum hins opinbera til að lækka skuldafjallið.

Moody´s telur að á komandi árum verði gögn um samfélagslegan óróa og spennu meðal almennings mikilvæg til að meta hvort þjóðir geti aðlagað sig að nauðsynlegum efnahagsstærðum.

Uppþot og óeirðir hafa þegar átt sér stað í Grikklandi af og til á þessu ári en þau eru rakin til hins bágborna efnahagsástands þjóðarinnar. Moody´s hefur áhyggjur af því að hið sama verði upp á teningnum í Bretlandi, og hjá fleiri mjög skuldsettum þjóðum, á næsta ári.

Í nýrri skýrslu frá Moody´s segir að jafnvel þótt þessar þjóðir komi sér saman um hve mikill niðurskurðinn þurfi að vera hjá þeim gætu þær lent í vandræðum með framkvæmdina á niðurskurðinum.

„Hjá þeim þjóðum þar sem skuldir hafa vaxið verulega, og sérstaklega hjá þeim þjóðum sem hafa ekki lengur efni á skuldum sínum, mun þörfin á niðurskurði reyna verulega á sáttina í samfélaginu. Þessi prófraun verður því erfiðari eftir Því sem vonbrigði með bata koma fram og vextir hækka," segir í skýrslunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×