Viðskipti erlent

Bandarískir bankar þurfa tugi milljarða dollara í viðbót

Bandarískir bankar þurfa allt að 65 milljarða dollara í viðbót frá stjórnvöldum til að halda sér gangandi. Þetta er niðurstaða úr sérstöku álagsprófi sem framkvæmt var nýlega hjá 19 af stærstu bönkum Bandaríkjanna.

Niðurstöðunni hefur verið lekið í fjölmiðla og samkvæmt frétt um málið á Bloomberg eru Bank of America, Citigroup, Wells Fargo og GMAC þeir bankar sem þurfa á aukinni aðstoð að halda. Raunar er talið að fjárþörf Bank of America nemi 34 milljörðum dollara að sögn þeirra sem eru kunnir málinu.

Seðlabanki Bandaríkjanna og eftirlitsstofnanir landsins segja í tilkynningu í dag að bankarnir verði að bæta lausafjárstöðu sína og að þeir hafi fram til 8. júní til að leggja fram áætlanir sínar um slíkt.

Góðu fréttirnar úr álagsprófinu eru að meirihluti fyrrgreindra 19 banka þarf ekki á frekari aðstoð að halda frá stjórnvöldum. Þeirra á meðal eru Goldman Sachs, JPMorgan og Morgan Stanley.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×