Viðskipti erlent

Náðarstundin nálgast hjá Chrysler

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Starfsmenn Chrysler önnum kafnir í einni af verksmiðjum fyrirtækisins.
Starfsmenn Chrysler önnum kafnir í einni af verksmiðjum fyrirtækisins.

Chrysler-bílaverksmiðjurnar hafa nú aðeins þrjá daga til að ná samkomulagi við starfsfólk sitt og lánardrottna um hagræðingu sem nægir til að halda þeim á floti.

Þau voru stíf fundahöldin hjá Chrysler-verksmiðjunum í Detroit í gær en þar sátu helstu stjórnendur á rökstólum ásamt fulltrúum starfsmanna og helstu lánardrottna fyrirtækisins. Barack Obama Bandaríkjaforseti veitti fyrirtækinu frest til 30. apríl, sem er á fimmtudaginn, til að komast að samkomulagi um hagræðingu sem dugi fyrirtækinu. Takist þetta ekki má búast við að þessi fornfrægi bílaframleiðandi verði gjaldþrota.

Einna helst binda menn vonir við að samkomulag náist um sameiningu við ítalska bílaframleiðandann Fiat en viðræður eru nú í gangi um það. Þá var nýr kjarasamningur, sem gerir ráð fyrir töluverðri hagræðingu og lægri launum, borinn undir atkvæði starfsmanna í síðustu viku og hlaut jáyrði 87 prósenta þeirra. Menn vilja allt frekar en að missa vinnuna og þar er launalækkun ekki undanþegin.

Veruleiki efnahagshrunsins er nú að renna upp fyrir starfsfólki og stjórnendum og þar sem áður var kurr og þref er nú meiri samningsvilji en nokkru sinni. Á miðvikudag heimsækja stjórnendur Chrysler svo fjármálaráðuneytið og leggja þar fram áætlun sína í von um að gjaldþrot verði ekki niðurstaðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×