Viðskipti erlent

Rússneskir bankar öskra á hjálp

Hundruð rússneskra banka stefna í að verða gjaldþrota fyrir næstu áramót. Þeir öskra nú á hjálp frá stjórnvöldum.

Í umfjöllun um málið í Financial Times segir Pyotr Aven forstjóri eins stærsta banka Rússlands, Alfa Bank, að reikna megi með að fimmtungur af öllum lánum rússneskra banka þurfi að afskrifa

"Við reiknum með að 20 til 30 af stærstu bönkum landsins muni fá aðstoð frá stjórnvöldum. En framtíðin fyrir hundruð annarra minni banka er óljós," segir Aven. "Ég tel að hundruð þeirra muni hverfa fyrir áramótin."

Í núverandi fjárlögum Rússlands er gert ráð að verja tæplega 2.000 milljörðum kr. í opinber lán til stærstu banka landsins.

Alexei Kudrin fjármálaráðherra Rússlands sagði í dag að ónýt lán rússnesku bankanna næmu nú um 10% af lánasöfnum þeirra. Hann bætti því svo við að svo virðist sem fjöldi banka reyni að leyna því hve slæm staða þeirra er í rauninni.

Rússneska bankakerfið hefur orðið verulega fyrir barðinu á fjármálakreppunni ásamt verulegum lækkunum á hrávöru eins og olíu og málmum.

Talið er að þessi kreppa í Rússlandi nú gæti orðið verri en sú sem landið lent í árið 1998.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×