Viðskipti erlent

Fjórði hver Dani vinnur í hlutastarfi

Fleiri og fleiri Danir velja nú að vinna í hlutastarfi. Alls eru 690.000 Danir nú sem ekki vinna fullan vinnudag en þetta er fjórðungur af vinnuafli landsins. Fjöldinn jókst um 17.000 manns á síðasta ári.

Fjallað er um málið í Politiken. Þar er haft eftir Henrik Lund lektor og sérfræðing í atvinnumálum við háskólann í Hróarskeldu að ein af orsökum þessa sé aukið álag á vinnustöðum landsins. „Samtímis því að álagið hefur aukist eru vaxandi kröfur um að maður skuli vera að allan tímann," segir Lund. „Og allan tíman er atvinnurekandinn að mæla, vega og meta afköstin."

Lund segir að önnur höfuðástæðan fyrir þessari þróun sé sú að í Danmörku reyni atvinnurekendur að skera niður á öllum sviðum þar sem slíkt er hægt.

Inger Stöjberg vinnumálaráðherra Danmerkur er ekki hrifin af þessari þróun. Hún vill gera það meira aðlaðandi að vera í fullri vinnu. „Hvati til vinnu þarf að vera til staðar. Annars eykst ekki styrkur okkar í framtíðinni," segir ráðherrann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×