Körfubolti

Ilievski: Sigurinn í kvöld táknar nýtt upphaf fyrir Tindastól

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Stefán
„Við erum kátir með sigurinn og gleðiefni að finna sigurtilfinningu," sagði Borce Ilievski, þjálfari Tindastóls, eftir sigur sinna manna gegn Breiðablik í 32-liða úrslitum Powerade-bikarins í körfuknattleik sem fram fór í Smáranum í kvöld.

Lokaúrslit urðu 49-78 fyrir gestina frá Sauðárkróki sem þar með unnu sinn fyrsta sigur á þessari leiktíð.

„Ég er mjög sáttur hvernig við lékum varnarlega í leiknum. Ég gerði kröfu um að vinna leikinn með meira en 20 stigum og er mjög sáttur með mína menn," segir Iliveski en Tindastóll á von á nýjum erlendum leikmanni.

„Við eigum von á nýjum leikmanni innan skamms og förum vonandi að leika betur. Við sýndum það gegn Snæfelli á dögunum að við kunnum að leika körfubolta en höfum verið óheppnir í vetur. Sigurinn í kvöld táknar nýtt upphaf fyrir Tindastól."

Tindastóll hafði tapað öllum fimm leikjum sínum í Iceland Express deildinni og því var þungu fargi létt af leikmönnum liðsins í leikslok. Ilievski segir að liðið eigi mikið inni og muni berjast fyrir veru sinni deild þeirra bestu

„Við leggjum mikla áherslu á heimamenn í liðinu í ár en nú verða þeir að stíga upp. Við munum ekki gefast upp og munum berjast fram í rauðann dauðan. Við erum með gott lið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×