Viðskipti erlent

Endurreisn opinberra fjármála lýkur á næsta ári

Búist er við að endurreisn opinberra fjármála á Norðurlöndum verði lokið á næsta ári, m.a. vegna aðgerða landanna sem miða að því að tryggja stöðugleika og marka sjálfbæra fjármálastefnu til lengri tíma.

Þetta kemur fram á vefsíðunni norden.org. Þar segir að norrænu fjármálaráðherrarnir hafi rætt á fundi sínum í Ósló þann 29. nóvember þau efnahagslegu og pólitísku úrlausnarefni sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

Atvinnuleysi hefur aukist á Norðurlöndum í kreppunni, þó það hafi verið tiltölulega lítið fyrir, sem þýðir að atvinnuleysi er undir meðallagi miðað við ríki Evrópusambandsins. Aðgerðir til að styrkja innviði vinnumarkaðarins og skapa atvinnu hafa verið forgangsmál á verkefnalista norrænu fjármálaráðherrunum.

Haldið verður áfram samstarfi til að stöðva skattaundanskot. Frá árinu 2006 hafa norrænu ríkin gert 29 samninga fyrir milligöngu Norrænu ráðherranefndarinnar um upplýsingamiðlun við svokölluð aflönd eða skattaskjól. Þeir gera skattayfirvöldum norrænu ríkjanna kleift að kanna fjármuni fyrirtækja sem skráð eru í skattaparadísum og eru liður í því að uppræta skattsvik. Þetta samstarfsverkefni hefur nú verið framlengt og er reiknað með að því verði fram haldið til í júní 2012 og leiði til þess að gerðir verði enn fleiri samningar.

Fjármálaráðherrarnir ræddu einnig hindranir sem verða til við lagasetningu á Norðurlöndum og torvelda norrænum borgurum og fyrirtækjum að starfa óháð landamærum. Ráðherrarnir voru sammála um að leggja áfram áherslu á afnám óþarfa stjórnsýsluhindarna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×