Viðskipti erlent

Minnsta atvinnuleysi í Þýskalandi í 19 ár

Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í Þýskaland síðan árið 1991. Tölurnar um atvinnuleysi í Þýskalandi verða gerðar opinberar á morgun. Ursula von der Leyen atvinnumálaráðherra landsins er hinsvegar svo ánægð með stöðuna að hún greindi frá tölunum á blaðamannafundi í dag.

Samkvæmt frétt í Politiken er fjöldi atvinnulausra í Þýskalandi nú undir 3 milljónum manna eða 2,945,000 talsins. Þetta er minnsti fjöldi atvinnulausra í landinu í 19 ár eða um 7% af vinnuaflinu.

Í tölunum sem gerðar verða opinberar á morgun kemur fram að 86.000 ný störf sköpuðust í Þýskalandi í þessum mánuði. Efnahagsbatinn innan ESB hefur verið hvað mestur í Þýskalandi þar sem hagvöxtur hefur verið yfir 2% á þessu ári.

Samkvæmt frétt Politiken reikna hagfræðingar með að atvinnuleysi í Þýskalandi fari aftur yfir 3 milljónir manna um skamman tíma á næsta ári en að megnið af því ári verði atvinnulausir undir 3 milljónum talsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×