Körfubolti

Hörður: Það er ekki hægt að afskrifa okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Þetta hafðist hérna í restina en við gerðum þetta allt of erfitt fyrir okkur," sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflvíkinga, eftir sigurinn í kvöld.

Keflavík bar sigur úr býtum gegn KR ,95-91, í Toyota-höllinni í kvöld en þeir höfðu aðeins unnið einn leik í Iceland-Express deildinni í vetur fyrir þennan leik.

„Við fórum að spila allt of mikið út úr kerfum og menn ætluðu að klára leikinn upp á sitt einsdæmi, en það hefur verið vandamál hjá okkur í vetur. KR-ingar komust allt og mikið inn í leikinn hérna í restina en við náðum samt sem áður að vinna leikinn sem er frábært."

„Þetta var típískur slagur milli þessara liða, leikurinn var mjög hraður og sennilega skemmtilegur á að horfa. Við erum með hörku gott lið þó svo að allir séu búnir að afskrifa okkur en núna erum við bara komnir á byrjunarreit og verðum að halda áfram að safna stigum," sagði Hörður.

Lazar Trifunovic, nýr leikmaður Keflvíkinga, lék virkilega vel í kvöld en Hörður telur að hann eigi aðeins eftir að verða betri.

„Hann er mjög góður leikmaður og á eftir að komast betur og betur inn í þetta hjá okkur en hann náði aðeins þremur æfingum með okkur fyrir leikinn í kvöld," sagði Hörður sáttur í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×