Viðskipti erlent

Bréfdúfa aftur sneggri en breiðbandið

Enn og aftur hefur bréfdúfa reynst sneggri en breiðbandið á netinu, að þessu sinni í Bretlandi.

Almenningur í Bretlandi hefur kvartað mikið undan því hversu breiðbandið virkar hægt á netinu þar í landi og því var ákveðið að láta bréfdúfu keppa við það í hraða sendingar.

Keppnin var sett þannig upp að 5 mínútna myndbandsskot var sent eftir breiðbandinu frá bæ í Yorkshire yfir til bæjar í Lincolnshire sem er í 120 km fjarlægð. Á sama tíma voru tölvukubbar með myndbandinu sendir sömu leið með tíu bréfdúfum.

Það er skemst frá því að segja að fyrsta bréfdúfan með tölvukubbinn skilaði sér á áfangastað töluvert á undan þeim tíma sem tók að hlaða myndbandið niður með breiðbandinu.

Sama tilraun var gerð í Suður-Afríku í fyrra og komst bréfdúfan Winston þá í heimsfréttirnar. Þegar hún náði áfangastað með tölvukubb var aðeins búið að hlaða niður 4% af efni hans í gegnum netsendingu. Fjarlægðin sem Winston flaug í því dæmi voru 96 km.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×