Viðskipti erlent

Spænsk stjórnvöld ætla að selja hlut í El Gordo

Spænskum stjórnvöldum er umhugað um að sanna fyrir fjármálamörkuðum að landið sé ekki í sömu stöðu og Írland. Meðal annars eru þau tilbúin til að selja allt að 30% af eignarhlutum sínum í ríkisreknum lottóum, þar á meðal El Gordo, eða Sá Feiti, sem er stærsta lottó í heimi.

Í frétt Bloomberg um málið segir að forsætisráðherra Spánar hafi þegar greint þingmönnum á spænska þinginu frá því að stjórnin sé tilbúin til að selja eignarhljuti í lottóum landsins. Þar að auki eru uppi áform um að einkavæða flugvellina við Madrid og Barcelona og selja allt að 49% hlut í þeim.

Þetta eru meðal tillagna í nýjum efnahagsmálapakka sem á að auka traust fjárfesta á spænska hagkerfinu. Sem stendur er Spánn með þriðja mesta fjárlagahallann á evrusvæðinu en hann nemur 11% af landsframleiðslu. Stjórnvöld ætla að minnka hann niður í 6% á næsta ári.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×