Viðskipti erlent

Goldman Sachs segir Pandóru yfir 1.100 milljarða virði

Bandaríski stórbankinn Goldman Sachs segir markaðsvirði danska skartgripaframleiðandans Pandóru nema 56 milljörðum danskra kr. eða rúmlega 1.100 milljarða kr. Bankinn mælir með kaupum á hlutabréfum í Pandóru.

Eins og komið hefur fram var Pandóra í meirihlutaeigu Axcel sjóðsins áður en fyrirtækið var skráð á markað í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. FIH bankinn átti hlut í Axcel og hagnaðist verulega á skráningunni.

Sá árangur leiddi aftur til þess að skilanefnd Kaupþings og Seðlabankinn fengu um 20 milljarða kr. aukalega út úr sölunni á FIH í haust. Raunar var haft eftir bankastjóra FIH daginn sem Pandóra var skráð að starfsmenn bankans hafi brosað allan daginn.

Goldman Sachs metur hluti í Pandóru á 430 danskar kr. stykkið en sem stendur er gengi hlutanna í kauphöllinni rúmlega 322 danskar kr. Hefur gengið hækkað um 48% frá skráningunni.

Fram kemur í frétt um málið á business.dk að sé þetta verðmat Goldman Sachs nærri lagi sé Pandóra verðmætari en Norden, Danisco og William Demant samanlagt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×