Viðskipti erlent

Suður- Kóreumenn hættir við að kaupa Elkem í Noregi

Stálfyrirtækið Posco í Suður-Kóreu er hætt við að kaupa Elkem í Noregi sem m.a. rekur járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Raunar segir forstjóri Posco að þeir hafi aldrei í alvöru verið að íhuga að kaupa Elkem.

Vangaveltur hafa verið um kaup Posco á Elkem frá því í lok ágúst s.l. þegar skilja mátti orð forstjórans, Chung Joon-yang, sem svo að Posco væri að kanna möguleika á kaupunum. Nú segir forstjórinn að þeir hafi ekki athugað þetta náið og séu ekki í alvöru að velta kaupunum fyrir sér.

Posco er þriðji stærsti stálframleiðandi heimsins en Elkem er meðal stærstu framleiðenda heimsins á járnblendi.

Elkem er í eigu iðnaðarrisans Orkla í Noregi en Orkla hefur áður sagt að það vilji losna við Elkem úr eigu sinni. Verðmatið á Elkem er nokkuð misvísandi, að því er segir í frétt um málið á vefsíðunni e.24.no. Það liggur allt frá 3,4 til 15 milljarða norskra kr. eða allt að hátt í 300 milljarða kr.

Hið mismunandi mat liggur í hvor sólarkísilframleiðsla Elkem, Elkem Solar, er reiknuð með í verðmatinu. Handelsbanken telur að járnblendihlutinn einn og sér sé 8 milljarða norskra kr. virði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×