Viðskipti erlent

Skilanefndir gætu fengið 9 milljarða frá All Saints

Breska tískuverslunarkeðjan All Saints er til sölu og verðmiðinn hljóðar upp á 140 milljónir punda. Skilanefndir Kaupþing og Glitnis gætu fengið um 9 milljarða kr. út úr sölunni á All Saints.

Fjallað var um málið í breskum fjölmiðlum um helgina. Í The Press Association segir að eigendur All Saints hafa fengið Ernst & Young til að vera ráðgjafar við söluna. All Saints er í meirhlutaeigu Kevin Stanford en Kaupþing og Glitnir halda á um 35% eignarhlut sem áður var í eigu Baugs.

Miðað við framangreinda verðhugmynd myndu Kaupþing og Glitnis fá tæpar 50 milljónir punda úr sölunni eða sem nemur rúmum 9 milljörðum kr. All Saints rekur nú yfir 100 verslanir í Bretlandi, Evrópu, Bandaríkjunum og Rússlandi.

Fram kemur í breskum fjölmiðlum að fleiri breskar verslunareignir sem nú eru í eigu skilanefnda íslensku bankanna séu á leið á markaðinn. Verið sé að endurskipuleggja rekstur þeirra með það að markmiði að gera þær söluhæfari. Sem dæmi er verslunarkeðjan Iceland Foods nefnd sem og Aurora og House of Fraser.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×