Viðskipti erlent

Töluverð lækkun á olíuverðinu í morgun

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði töluvert á mörkuðum í morgun. Þannig lækkaði verð á Brentolíunni um rúm 3% og stendur nú í rúmum 109 dollurum fyrir tunnuna í framvirkum samningum. Verð á bandarísku léttolíunni lækkaði um tæpa 3 dollara og stendur í rúmum 97 dollurum á tunnuna.

Í frétt á Reuters um málið segir að rekja megi þessa lækkun til styrkingar á gengi dollarans gagnvart evrunni. Hefur dollarinn ekki verið jafnsterkt gagnvart evrunni í tvo mánuði. Ástæðan fyrir því að dollarinn styrkist eru síðan áhyggjur fjárfesta af skuldastöðunni á evrusvæðinu.

Matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði lánshæfismat Grikklands um þrjú hök á föstudaginn var og sökkti lánshæfinu þar með enn dýpra niður í ruslið. Og á laugardag setti Standard & Poor´s svo lánshæfismat Ítalíu á neikvæðar horfur en horfurnar höfðu verið stöðugar.

Þá hefur eldgosið í Grímsvötnum einnig valdið skjálfta á mörkuðum að sögn Reuters þótt litlar líkur séu taldar á að það hafi sömu áhrifin og eldgosið í Eyjafjallajökli í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×