Viðskipti erlent

Örlög Portúgals ráðast á morgun

Margir telja að Portúgal rambi nú á barmi þjóðargjaldþrots en örlög landsins munu væntanlega ráðast á morgun. Þá ætla portúgölsk stjórnvöld að bjóða út fimm og tíu ára ríkisskuldabréf. Fari vextirnir af tíu ára bréfunum yfir 7% í útboðinu eru allar líkur á að Portúgalir kasti handklæðinu í hringinn og leiti ásjár ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Um er að ræða útgáfu upp á samtals 1,25 milljarð evra en vextirnir á tíu ára ríkisskuldabréfum Portúgals eru nú tæplega 7%. Sjálf segja portúgölsk stjórnvöld að vextir yfir 7% þýði að skuldirnar séu ósjálfbærar. Til samanburðar má nefna að þýsku viðmiðunarvextirnir á tíu ára bréfum eru nú 2,85%.

Jacob Graven aðalhagfræðingur Sydbank segir í samtali við börsen.dk að jafnvel þótt Portúgal sleppi naumlega frá útboðinu á morgun þannig að vextirnir hækki ekki meir en orðið er séu allar líkur á að landið taki þau „þungu skerf" á næstum vikum og biðji um aðstoð.

Það hefur raunar komið fram áður að bæði Þjóðverjar og Frakkar hafa beitt Portúgali miklum þrýstingi til að þiggja neyðaraðstoð frá ESB og AGS. Þessu hafa portúgölsk stjórnvöld hafnað hingað til og segja að þau ætli sér að komast í gegnum þennan brimskafl af eigin rammleik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×