Viðskipti erlent

Útflutningur jókst um 20 prósent

Fiskiþorpið Henningsvær á Lófóten í Noregi hefur notið góðs af metári í norskum sjávarútvegi.
Mynd/AFP-NordicPhotos
Fiskiþorpið Henningsvær á Lófóten í Noregi hefur notið góðs af metári í norskum sjávarútvegi. Mynd/AFP-NordicPhotos
Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi jókst sjöunda árið í röð í fyrra og nam þá um 1.100 milljörðum íslenskra króna sem er um 20 prósenta aukning frá 2009. Frakklands- og Rússlandsmarkaðir eru stærstu útflutningsmarkaðir norsks sjávarútvegs.

„Samkeppnin á heimsmarkaði er hörð. Við verðum að nýta þau tækifæri sem liggja í því að auka verðmæti sjávarafurða okkar, þar eru miklir möguleikar,“ segir Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, í samtali við norska Ríkisútvarpið. Alls voru flutt út 2,7 milljónir tonna af fiski, 93.000 tonnum meira en árið áður. „Þetta jafngildir því að 37 milljónir máltíða með norskum fiski séu snæddar einhvers staðar í heiminum á hverjum degi,“ segir Terje E. Martinussen, forstjóri Útflutningsráðs sjávarafurða í Noregi.

Mest jókst útflutningur á eldisfiski og hefur aldrei verið framleitt meira af honum í Noregi en á síðasta ári. Verð á eldislaxi er nú í hámarki á heimsmarkaði, hærra en verið hefur í 21 ár. - pg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×