Viðskipti erlent

Afsagnarbréf hefur kostað Goldman Sachs 250 milljarða

Opinbert afsagnarbréf starfsmanns hjá Goldman Sachs bankanum í Bandaríkjunum hefur kostað eigendur bankans um 250 milljarða króna á hlutabréfamarkaðinum á Wall Street.

Starfsmaðurinn, Greg Smith, birti afsagnarbréf sitt í blaðinu New York Times. Þar ber hann Goldman Sachs ekki vel söguna. Segir hann bankann vera siðferðislega gjaldþrota og helsta keppikefli starfsmanna hans sé að féflétta viðskiptavini sína. Þá segir hann andrúmsloftið á vinnustað sínum hafa verið eitrað.

Við lok markaða á Wall Street í nótt hafði gengi Goldman Sachs fallið um tæp 3,4% vegna bréfsins frá Smith og skapað þannig gengistap upp á um 250 milljarða króna hjá eigendum hlutafjár í bankanum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hraunað er yfir Goldman Sachs. Í vetur skrifaði blaðamaður stóra grein í Rolling Stone tímaritið þar sem bankinn var kallaður vampýru kolkrabbi sem legðist á allt þar sem blóðlykt væri að finna.

Lloyd Blankfein bankastjóri Goldman Sachs hefur svarað Smith á heimasíðu bankans. Þar ber hann sakir Smiths af bankanum og segir starfsmennina gæta hagsmuna viðskiptavina sinna í hvívetna enda sé slíkt í þágu hagsmuna bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×