Útherjinn magnaði hjá Detroit Lions, Calvin Johnson, er búinn að skrifa undir nýjan sjö ára samning við Lions. Samningurinn er sá stærsti sem útherji í NFL-deildinni hefur gert frá upphafi.
Johnson, sem er oftast kallaður Megatron vegna líkamsburða sinna, fær 132 milljónir dollara á samningstímanum. Þar af eru 60 milljónir tryggðar ef svo færi að eitthvað kæmi upp á.
Þessi samningur toppar samning Larry Fitzgerald sem samdi við Arizona Cardinals í fyrra fyrir 120 milljónir dollara.
Johnson var valinn annar í nýliðavalinu árið 2007 og átti eitt ár eftir af samningnum sem hann gerði þá. Johnson er 26 ára gamall.
