Viðskipti erlent

Ísland er í 12. sæti í alþjóðlegu netvísitölunni

Ísland er í 12. sæti í alþjóðlegu netvísitölunni Web Index 2012 en þetta er í fyrsta sinn sem þessi vísitala er birt. Vísitala þessi nær til rúmlega 60 þjóða víða um heiminn.

Það sem vísitalan mælir er m.a.  tæknilegur aðgangur að netinu, hve auðvelt er að nálgast upplýsingar á því og hve mikil félagsleg áhrif netið hefur í viðkomandi landi.

Ísland skorar hæst hvað aðganginn að netinu varðar en er neðarlega þegar kemur að félagslegum áhrifum netsins.

Svíþjóð er í efsta sætinu í þessari vísitölu, Bandaríkin í öðru sæti og Bretland í því þriðja. Noregur og Finnland eru í topp tíu sætunum en Danmörk er ekki með í þessari vísitölu.

Í neðstu sætunum eru svo lönd á borð við Jemen, Zimbawe og Burkina Faso.

Vísitala þessi var unnin undir stjórn tölvuvísindamannsins Sir Tim Berners-Lee en hann var einn af þeim sem komu netinu á fót í fyrsta sinn árið 1989. Það var hinsvegar stofnunin World Wide Web sem fjármagnaði gerð vísitölunnar en áformað er að birta hana reglulega í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×