Skoðun

Já á lands­byggðinni

Sigríður Margrét Oddsdóttir skrifar

Löng hefð er fyrir því að þjónustuver Já og forvera fyrirtækisins séu staðsett bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík. Þegar Já var stofnað árið 2005 rak félagið fjögur þjónustuver og 50% starfsmanna í þjónustuverum voru búsettir á landsbyggðinni. Undanfarin ár hafa orðið breytingar á bæði markaði og skipulagi félagsins. Nú, árið 2012, rekur félagið tvö þjónustuver í stað fjögurra, eitt í Reykjavík og annað Í Reykjanesbæ og eru 57,4% starfsmanna búsettir á landsbyggðinni, einmitt á því svæði þar sem atvinnuleysi hefur verið hvað mest undanfarin ár.



Fram kom í viðtali við bæjarstjórann á Akureyri í fréttum RÚV að hann furðaði sig á því að Já hefði fengið viðurkenningu frá FKA með tilvísun í uppsagnir starfsmanna á Akureyri. Þau eru fá fyrirtækin sem hafa ekki þurft að segja upp starfsmönnum frá bankahruni vegna samdráttar á heimamarkaði. Það hefur Akureyrarbær sjálfur þurft að gera eins og fram kom í viðtali við bæjarstjórann sem birtist í vikublaðinu Akureyri þann 3. nóvember 2011.



Erfiðasta verkefni allra stjórnenda eru ákvarðanir um uppsagnir starfsmanna, það vita allir stjórnendur að slíkar ákvarðanir eru ekki teknar nema að vel ígrunduðu máli. Stjórnendur bera ábyrgð, gagnvart viðskiptavinum, starfsmönnum og eigendum á því að fyrirtæki sem þeir stýra séu rekin á sem hagkvæmastan hátt og geti þannig dafnað inn í framtíðina. Við hjá Já höfum lagt mikla áherslu á þróun þjónustuframboðs félagsins undanfarin ár. Við erum stolt af góðum árangri og okkar starfsfólki. Við erum sérlega stolt af því frábæra starfi sem unnið hefur verið í Reykjanesbæ, þar er sannarlega gott að reka fyrirtæki.




Skoðun

Sjá meira


×