Undanúrslit NFL-deildarinnar fara fram í kvöld. San Francisco 49ers er ekki að fá besta undirbúninginn því stjörnuútherji liðsins, Michael Crabtree, hefur verið í yfirheyrslum hjá lögreglu vegna nauðgunarmáls.
Hin meinta nauðgun á að hafa átt sér stað á hóteli 49ers eftir sigurinn á Green Bay Packers um síðustu helgi.
Crabtree hefur gefið skýrslu til lögreglu en ekki verið handtekinn frekar en nokkur annar í málinu. Crabtree hefur þess utan samþykkt að veita frekari aðstoð í málinu ef þess sé óskað.
Talsmaður 49ers segir að félagið viti af málinu og taki það alvarlega.
Crabtree fór með liðinu til Atlanta þar sem liðin mætast klukkan 20.00 í kvöld. Leikurinn er í beinni útsendingu á ESPN America sem má finna á fjölvarpi Digital Ísland.
