Viðskipti erlent

„Geimskip“ Apple 240 milljarða yfir áætlun

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tölvuteikningar af húsinu sýna eitthvað sem líkist helst geimskipi úr vísindaskáldsögu.
Tölvuteikningar af húsinu sýna eitthvað sem líkist helst geimskipi úr vísindaskáldsögu.
Steve Jobs kynnti byggingaráform sín um nýjar höfuðstöðvar tölvurisans Apple fyrir borgarráði Cupertino-borgar í Kaliforníu nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn árið 2011. Nú eru tæplega tvö ár liðin og kostnaður við bygginguna er rokin upp úr öllu valdi þrátt fyrir að vera enn á hönnunarstigi.

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu hússins er talinn verða tæpir sex hundruð milljarðar þegar upp er staðið, og nú þegar er verkefnið komið 240 milljarða fram úr áætlun.

Tölvuteikningar af húsinu sýna eitthvað sem líkist helst geimskipi úr vísindaskáldsögu, en fyrirhugað er að byggingin hýsi skrifstofur Apple, fyrirlestrarsal fyrir eitt þúsund manns, líkamsræktarstöð og bílastæðahús, svo eitthvað sé nefnt. Í miðjunni er svo gert ráð fyrir sannkölluðum paradísargarði með tjörnum og trjám. Alls munu um tólf þúsund manns starfa í þessari rúmlega 250 þúsund fermetra byggingu.

Þessi himinhái kostnaður skýrist að einhverju leyti af sérsvisku Jobs, en ekki er eina einustu sléttu rúðu að finna í byggingunni. Þýskur glerframleiðandi vinnur hörðum höndum að þróun glersins, og talar hann um „sex kílómetra af bognu gleri" af tegund sem aldrei hefur verið framleidd áður.

Hönnuðir byggingarinnar, Foster + Partners, kanna nú ýmsa sparnaðarmöguleika og áætlað er að geimskip Apple verði ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi árið 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×