Viðskipti erlent

Spá vaxandi atvinnuleysi í Noregi á næstunni

Samtök atvinnurekenda í Noregi (NHO) spá því að atvinnuleysi fari vaxandi þar í landi fram á næsta ár. Í mars s.l. voru um 100.000 manns á atvinnuleysisskrá en NHO reiknar með að þeir verði orðnir 120.000 innan árs. Þar með myndi atvinnuleysið mælast um 4,4%.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar segir að atvinnuleysið hafi farið vaxandi seinnihluta vetrar. Þannig mældist það 3,5% í febrúar og jókst í 3,7% í mars.

Dag Aarnes einn af deildarstjórum NHO segir í samtali við e.24.no að stöðnun hafi ríkt á norska vinnumarkaðinum á liðnu ári. „Við teljum að atvinnuleysið sé að aukast og muni aukast fram á næsta ár,“ segir Aarnes og segir að höfuðástæðan fyrir þessu séu þeir erfiðleikar sem verið hafa í efnahagsmálum á alþjóðavísu.

Fram kemur að í reglubundinni könnun NHO meðal stjórnenda norskra fyrirtækja komi fram að þeir reikni að meðaltali aðeins með að umsvif þeirra aukist um 0,8% á þessu ári og 1,3% á næsta ári. Til samanburður jukust umsvifin um 1,5% á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×