Kastarinn Hilmar Örn Jónsson byrjar vel á EM ungmenna sem hófst í Rieti á Ítalíu í morgun en hann tryggði sér þá sæti í úrslitum í sleggjukasti.
Kastað er með 6 kg sleggju á mótinu og Hilmar Örn átti best 70,18 m sem er jafnframt Íslandsmet 19 ára og yngri.
Allir sem kasta 70 metra í undanúrslitum komast áfram en síðari kasthópurinn á enn eftir að keppa í undanúrslitum.
Þess má svo geta að Arna Stefanía Guðmundsdóttir hóf keppni í sjöþraut í morgun og byrjaði á því að bæta sinn besta árangur í 100 m grindahlaupi er hún kom í mark á 14,14 sekúndum.
Aníta Hinriksdóttir keppir svo í undanúrslitum í 800 m hlaupi kvenna í dag.
