Aníta átti magnað hlaup og kom önnur í mark á eftir Pólverjanum AngelikuCichocku á 2:01,03 mínútum sem hefði verið jöfnun á heimsmeti unglinga.
Þá dugði tíminn til að koma henni í úrslitahlaupið en Aníta var með fjórða besta tímann og hefði verið fyrst í úrslit á eftir sigurvegurunum þremur í undanrásunum.
GunnarPáll Jóakimsson, þjálfari Anítu, kærði úrskurð dómara en kærunni var hafnað. Aníta steig á línu sem er bannað og var það nóg til að hún væri dæmd úr leik.
„Aníta gerði allt rétt í dag (nema þetta að stíga á strikið),“ segir Gunnar Páll á Facebook-síðu sinni. „Útfærslan var alveg eins og ég vonaðist eftir - fyrstu 400m á því tempói sem lagt var upp með og nú var hún mjög sterk síðustu 200m.“
„Hún skildi eftir fullt af frábærum hlaupurum sem voru búnir að hlaupa hraðar en hún í vetur. Var t.d. að hlaupa hraðar en þær þrjár sem voru á undan henni í New York á dögunum ... Tíminn var jöfnun á Heimsmeti unglinga innanhúss en Aníta á 1 ár í viðbót til að taka það met,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson.
Þetta frábæra, en því miður ógilda, hlaup Anítu má sjá í spilaranum hér að ofan.


