Kári Steinn Karlsson setti nýtt Íslandsmet á Heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem fram fór í dag í Kaupmannahöfn. Fimm af sex íslenskum keppendum tókst að klára hlaupið.
Kári Steinn kom í mark í 72. sæti á 65:12 mínútum en gamla Íslandsmetið sem hann átti sjálfur var 65:35 mínútur. Afríkubúar urðu í fimmtán efstu sætunum í hlaupinu en Keníamaðurinn Geoffrey Kipsang Kamworor varð heimsmeistari á 59:07 mínútum.
Arnar Pétursson bætti sig um 40 sekúndur og kom í mark í 98. sæti á 69:44 mínútum. Ingvar Hjartarson náði ekki að klára hlaupið.
Arndís Ýr Hafþórsdóttir náði bestum árangri Íslendinga í kvennaflokki þegar hún kom í 76. sæti í mark á 80:01 mínútum en þetta er hennar besti árangur.
Martha Ernstdóttir, sem á Íslandsmetið í greininni 1:11:40 klst., braut blað í sögu hlaupsins í dag því hún var bæði elsti keppandinn sem tók þátt í hlaupinu og svo er þetta í sjötta sinn sem hún tekur þátt í þessu hlaupi.
Martha varð í 82. sæti á 84:23 mínútum en Helen Ólafsdóttir endaði í 84. sæti á 84:40 mínútum.
