Asafa Powell, fyrrverandi heimsmethafi í 100 metra hlaupi karla, var í gær úrskurðaður í 18 mánaða keppnisbann fyrir lyfjamisnotkun.
Lyfið oxilofrine fannst í þvagsýni sem hann gaf eftir jamaíska meistaramótið í júní á síðasta ári en hann var einn af fimm keppendum þar sem gerðust sekir um lyfjamisnotkun á því móti.
Powell kennir þjálfaranum sínum um bannið en hann segir efnið hafa verið í drykk sem hann fékk frá þjálfaranum á meðan mótinu stóð.
„Ef þú segist treysta fólki og þetta er það sem gerist ertu alveg jafnsekur. Þú þarft bara að taka þessu eins og maður,“ segir Kim Kollins, fyrrverandi heimsmeistari í 100 metra hlaupi, í viðtali við BBC.
Collins, sem hleypur fyrir St. Kitts og Nevis, segir það hreinlega lélegt hjá Powell að kenna öðrum en sjálfum sér um þetta.
„Þú segist treysta þessum manni og hann kemur þér síðan í vandræði. Hvað geturðu sagt? Þú treystir honum. Powell á bara að segja að þetta séu hans mistök og hann beri fulla ábyrgð á þeim,“ segir Kim Collins.
