Jóhann Björn Sigurbjörnsson stórbætti eigið met í 100 metra hlaupi karla á 72. Vormóti ÍR sem haldið var í gærkvöldi en hann kom í mark á 10,71 sekúndum.
Besti tími Jóhanns Björns fyrir gærkvöldið var 10,99 sem hann náði á Vormóti HSK þann 17. maí síðastliðinn. Tími Jóhanns í gærkvöldi er 7. besti tíminn frá upphafi í 100 metra hlaupi hér á landi og sá besti frá árinu 2000.
Með því bætti hann piltamet Jóns Arnars Magnússonar sem hann setti í Krefeld og hafði staðið allt frá árinu 1988. Kolbeinn Höður Gunnarsson, UFA kom annar í mark á 10,83 sek.
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR var öruggur sigurvegari í 800 metra hlaupi kvenna en hún kom í mark á rétt rúmlega tveimur mínútum. Fór Aníta fyrri hringinn á mínútu en þann seinni á rúmlega mínútu.
Hlynur Andrésson úr ÍR sigraði í 3000m minningarhlaupi um Jón Kaldal, einn fyrsta afreksmann okkar Íslendinga. Hlynur kom í mark á 8:44;66, rúmlega hálfri mínútu á undan Guðna Páli Pálssyni sem kom næstur á eftir honum.
Heilt yfir var mikið var um bætingar á mótinu og var frálsíþróttafólkið sýnilega í fínu formi fyrir Evrópukeppni landsliða eftir 10 daga. Það voru þó nokkrir íþróttamenn sem ákváðu að hvíla eftir fjölþrautarkeppnina sem fór fram um síðustu helgi.
