Viðskipti erlent

Hyperlapse nýjasta byltingin í myndbandsupptökum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/SKJÁSKOT
Mynddreifingasmáforritið Instagram hleypti af stokkunum nú á þriðjudag nýju smáforriti sem gerir fólki kleift að taka upp myndbönd og spila þau aftur á að allt að tólfföldum hraða, án þess að myndgæðin skerðist.

Forritið, sem ber nafnið Hyperlapse, er ákaflega einfalt í notkun; smellt er á hnapp til að taka upp myndband og smellt aftur til að stöðva upptökuna. Því næst er endurspilunarhraðinn ákveðinn og gefst notendum smáforritsins því næst tækifæri á að deila myndskeiðum sínum beint á Facebook og Instagram.

Helsti galdurinn á bak við forritið liggur í myndjöfnunni en þegar myndböndum er hraðað margfaldast minnstu hreyfingar myndavélarinnar  þannig að nær ómögulegt verður að horfa á myndböndin án þess að sundla. Verkfræðingum á vegum Microsoft tókst hins vegar að draga úr þessum hristingi, þrátt fyrir að myndböndin séu spiluð aftur á allt að tólfföldum hraða.

Sjón er sögu ríkari en hér að neðan má sjá myndbönd sem kynna virkni Hyperlapse. Þá hefur starfsfólk Hvíta hússins ekki látið tæknina fram hjá sér fara en þeir birtu á dögunum myndband af ferðalagi sínu í gegnum forsetabústaðinn og birtu á Facebook-síðu sinni.

Hægt er að hlaða niður forritinu í Google Play og App store sér að endurgjaldslausu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×