Viðskipti erlent

Apple herðir öryggi

Samúel Karl Ólason skrifar
Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple.
Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple. Vísir/AFP
Fyrirtækið Apple mun auka öryggi notenda sinn á netinu. Með því vill fyrirtækið draga úr því að fólk verði fyrir barðinu á óprúttnum aðilum, sem steli myndum og gögnum frá notendum snjalltækja sinna.

Nektarmyndir af Jennifer Lawrence og öðrum frægum konum voru nýverið birtar á netinu, eftir að þeim hafði verið stolið, að miklu leyti, í gegnum iQloud þjónustu Apple.

Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, segir í samtali við Wall Street Journal að fyrirtækið muni nú senda fólki tölvupóst í hvert sinn sem einhver reyni að niðurhala gögnum þeirra á iQloud í nýtt tæki. Slíkar tilkynningar hafa ekki verið til staðar áður.

Notendur hafa þó fengið tölvupóst, reyni einhver að breyta lykilorði þeirra.

Samkvæmt AP fréttaveitunni mun fyrirtækið byrja að senda frá sér þessar tilkynningar eftir tvær vikur. Apple biðlar einnig til viðskiptavina sinna að taka upp flókin lykilorð og að virkja þá stillingu að til þess að geta skráð sig inn í iQloud þurfti að fá lykilnúmer sent í símann.

Apple viðurkenndi fyrr í vikunni að tölvuþrjótarnir hafi brotist inn á aðganga fólks með því að finna út lykilorð þeirra og komast fram hjá öðrum öryggisviðmótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×